Wednesday, November 21, 2007

í dag er lokadagur minn að sitja yfir sýningunni. Ég sit hér núna, spjalla við greindarlega listunnendur og frýs. Fingurnir eru að detta af mér og þar sem áður var nef á andliti mínu er núna gap því nefið fraus, brotnaði og datt af. Ég er komin með gigt og hárið er að detta af mér, æðarnar á kinnbeinunum eru komnar í ljós, ég er ekki viss hvort það er sökum endalausra partýa eða kulda.
Ég efast um að ég gæti sitið hér einn dag í viðbót hokin og samankrept af kulda. Guði sé lof og prís fyrir sundlaugina hér í nágreni vinnunar. Þar sem er hlýtt og ég get tekið sundtök í vatninu og lofað líkamanum að teyja almennilega úr sér og liðið einsog manneskju á eftir. Nefið vex aftur og fingurnir frosnu þiðna.
Þetta er komið gott.
Nú tekur við vinnan við að taka sýninguna niður og senda hana heim.
Að því loknu er hugmyndin að hverfa með ljóni inní hlýjuna. Ég ætla ég að vera hér út mánuðinn, Taka mér frí og vera hlýtt í tvo daga um hjartarætur. Taka svo lestina með ljóninu yfir alpana aftur heim til Berlínar.

Vetur í Berlín, kolalykt, íbúðin mín, vinnustofan kalda, hlýju fötin mín, heit jólaglögg, ristaðar kastaníuhnetur, Anne, Api, vinir og vinnan.
Vá, hvað 3 mánuðir er eitthvað langur tími.
Ég fór þaðan um sumar.
.
Berlínarrúnturinn.
Klára skattinn.
Fara til tannsa.
Gera umsókn fyrir gallerí nord.
Vinna verkið fyrir Winnepeg.
Fá matthías til mín.
Fara svo til Íslands um jól og vera í fjölskyldufaðmi.

Da Masterplan!

Það er reyndar búið að vera dásamlegt að vera hérna. Það hefur komið mér á óvart hvað ég hef notið þess vel og mikið. Ég er jafnvel í aðra röndina pínu melankólísk yfir að vera á förum. Ég mun kanski kreista fram tár í lestinni í einhverjum undirgöngunum undir ölpunum.

Nú ætla ég að halda áfram að skrifa sjálfri mér og framtíðar aðstoðarfólki mínu bréf inní framtíðina.
2057
Ég sé framá að verða erfið gömul kona.