Saturday, September 08, 2007

House Hunting í Feyneyjum.

Ég bý núna í fallegri íbúð akkúrat á milli Rialto og San Marco og þegar ég geng í vinnuna þarf ég að skjóta mér einsog skugginn á milli túristanna sem lötra sér af risastórum skemtiferðaskipum á morgnanna og lötrast um bæinn einsog her af villtum lötrum sem er stratigitly staðsettur til að tefja og pirra mig áður en ég er búin að drekka kaffibollann minn. Þetta finst þeim góð staðsetning. Ég ákvað að reyna að flytja því þessi staðsetning er aukinheldur skítdýr. Reyndar ekkert svo dýr, miðað við staðsetningu og lúxus, en of dýr fyrir littlu mig 1100 evrur á mánuði.
Svo ég fór að leita.
Ég hringd 20 símtöl.
Skoðaði á endanum 3 íbúðir.
Tók eina þeirra.
Þetta tók mig einn dag.
Ég komst eftir óprúttnum leiðum yfir lista frá Peggy Guggenheim og verðin á íbúðunum sem hennar fólk hefur fundið er skikkanlegt, við gætum jafnvel kallað þau eðlileg.
Ég var búin að ákveða að reyna að vera í háskólahverfinu eða gyðingahverfinu, það eru hverfi sem geta talist eðlileg í þessari annars við-fyrstu-sýn "óeðlilegu" borg.

Alora, það var mjög áhugavert að fá að fara inná feneysk heimili til að skoða.

#1 Risíbúð hjá Santa Maria Gloria De Frare. Ég labbaði inn og vissi að þarna mundi ég búa. Mig langar að flytja strax inn. Ótrúlega sætt opið ris með þaktoppalandslags útsýni í allar áttir. Landlordarnir hjón, hann frá París og hún feneysk, með tvö börn og kött. Þau búa hálfan mánuð í París og hálfan í Feneyjum. Ég á að hugsa um kisu sem heitir Sísí á meðan þau eru í burtu. 650 evrur á mánuði og tíu auka fyrir nótt ef ég fæ gesti. Íbúðin er sæt, með pínulítið en velnothæft eldhús og opið rými. Lítil skrifstofa með fallegu útsýni, þráðlaust internnet, einhverskonar stofa með japönskum futon sem hægt er að breyta í rúm og opið svefnrými. Risastór fallegur gamall fataskápur, hillur, skrifborð og borðstofuborð. Fullkomið. Ég tilkynni að ég borgi umsvifalaust tryggingargjaldið á morgun og bið þau að senda mér bankauppl svo ég geti borgað leiguna fyrir fram. Við fáum okkur salat og vínglas, spjöllum um kvikmyndahátíðina, bienalinn, listir og ferðalög og ég klappa kisu sem er lítil læða, mjálmar mikið. Minnir mig á kisuna hans pabba. Þau eru bæði listamenn og virka yndæl, ferðast mikið, hún á börnin tvö 10 og 13 ára. Ég spyr hvort ég meigi koma aftur á morgun og taka myndir fyrir son minn um leið og ég borga trygginguna og það er auðsótt.

Sakar ekki að skoða meira.

#2 Garðhýsi í Hallargarði við Barrabas síkið, átti að kosta 500 kall á mánuði sem er mjög ódýrt svo mér fannst það heillandi þrátt fyrir að í lýsingunni stæði rauðu letri "Taka þetta útaf listanum - þetta er of funky - Garðhýsi í mjög fallegum hallargarði en landlordin sérvitur og erviður og Luca rakst á risasproðdreka á eldhúsgólfinu." Ég fann pallacioið og dinglaði uppá. Á móti mér tekur stór hranaleg rauðhærð kona í einhverksonar Batik kufli og stór svartur vinalegur hundur. Hún býr ein í höllinni umkringd þungum mublum fallegum munum, að því er virðist allstaðar úr heiminum, veggirnir eru þaktir málverkum og teppaverkum. Hún er með þýskan hreim svo ég sé mér leik á borði "Wir können auch Deutch sprechen" Hún mýkist öll upp, Hún er frá Asturríki, ekkja, málari búin að búa í Feneyjum hálfa æfi sína. Hundarnir hennar eru nýdánir en þessum hundi var bjargað úr dópbæli og hún var beðin um að veita honum skjól. Hann er góður hundur. Við spjöllum mikið á meðan ég klappa hundinum og tala íslensku við hann sem konan verður alveg stórhrifin af svo ég er algerlega búin að koma mér í mjúkinn hjá henni. Líka með því að horfa stóreyg í kringum mig og skoða allt vel og spurja úti munina hennar. Mig langar að sjá málverkin hennar en hún getur ekki sýnt mér þau núna. Hún sýnir mér garðhýsin, Garðurinn er gjörsamlega dásamlegur og garðhýsin ágæt. Þetta væri paradís að búa í í viku, jafnvel tvær en ekki í þrjá mánuði. Það gengur ekki upp. Ég seigist muni hugsa málið og vera í sambandi vitandi að ég mun ekki taka garðhýsið en sitja mig hinsvegar í samband aftur til að sjá málverkin og til þess að kanski ef gestir koma til mín fá að setja þá í garðhýsin, Þetta er uþb fimm mínótna gangur frá íbúðinni sem ég er farin að kalla mína.

#3 Barbí-hús og Barbí-landlord á San Toma. Á móti mér tekur þvegnmjó, ótrúlega hrukkótt en strekt, verulega sólbrún, -með húð einsog leðurtaska- kona í háum hælum með aflitað hár og reykingarrödd klædd í töff föt með pallíettum og talar stöðugt. Blandar saman ítölsku og ensku, talar lélega ensku en íbúðin er á svo gjörsamlega frábærum stað að ég verð að kíkja. Hún á að kosta 950 kall á mánuði sem er aðeins of dýrt svo það er einsgott að hún sé frábær. Hún er ótrúlega viðbjóðsleg, plasthúðuð. Ég geng inn, virði fyrir mér og bakka út. En það var þess virði til að fá að hitta þessa konu, sjá göngulagið hennar og krumaða brjósaskoruna á milli gerfibrjóstanna, hlusta á röddina og hljóðið í hælunum hennar háu og finna ilmvatnslygtina. Ímynda mér ástarævintýrin hennar og hvað gleður hana, skartgripir og skjall, hvað hryggir hana, hvort hún á börn, hvernig móðir hún er, hvernig hún er á svipin þegar hún fær fullnægingu. Hún gæti verið fertug en hún gæti líka verið sjötug. Ef ég væri stákur mundi ég láta mig dreyma um hana. Hún er spennandi.

Um nóttina dreymdi mig Sísí og Apa að leika sér saman og ríða. Api bítur í hnakkann á Sísí og hún malar og mjálmar. Þetta er hjónaband. Mér á eftir að líða vel í þessari íbúð og ég flyt inn um mánaðarmótin.

Þegar ég seigi Feneyingum frá því að ég hafi fundið þessa íbúð, á þessari staðsetningu og fyrir þetta verð detta þeir af stólunum sínum og signa sig. Ég hlýt að hafa verið alveg makalaust heppin.

ps. tannlæknirinn minn svarar mér ekki...

Friday, September 07, 2007

Góðan dag Virðulegi Tannlæknir, ég heiti Gunnhildur og ég er stödd á Ítalíu í 3 mánuði. Þannig er mál með vexti að ég hef áhyggjur af endajaxli sem ég er með í munni mínum. Ég finn fyrir þrýstingi í honum og er stundum með verk uppí eyra, ekki alvarlegan verk, meira einsog þrýstingur uppí eyra td þegar ég tygg og þegar ég ligg á hægri hlið. Er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af? Ég er að vona að þetta versni ekki á meðan ég er hér á ítalíu því ég vil helst ekki þurfa að fara til tannlæknis hér.
Heldur þú að þetta sé eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af og eitthvað sem ég ætti að bregðast skjótt við eða eitthvað sem má bíða.
Kveðja, Gunnhildur
Ég veit hvar ég verð þegar ég verð 70 ára. Ég verð á vaðstígvélum með hund á bóndabæ á suðurlandsundirlendi Íslands. Þar ætla ég að kaupa mér hús og rækta kartöflur og bjóða hestamönnum ókeypis sumarhaga með sérstaka áherslu á fylfullar merar. Sumarhagann ætla ég að hafa beint fyrir utan vinnustofugluggann minn og þegar ég lít dreymin uppúr vinnunni mun ég kannski sjá nýfætt folald taka fyrstu skrefin sín.
Húsið er stórt, ég er með ákveðið eyðibýli í huga og vinir mínir koma í langar heimsóknir og verða með vinnustofur hjá mér. Það verður nóg pláss fyrir barnabörninmín og litlar frænkur og litla frænda. Ég mun fá leyfi hjá yfirdýralækni til að flytja inn Hjaltlandseyjadverghesta fyrir þau. Þetta er eina leiðin fyrir mig til að flytja aftur til þessa brjálaða lands, íslands.

Guð blessi ykkur öll. Ég mun blogga á meðan ég dvelst hér í Feneyjum og kannski um ókomna tíð. Ég hef aldrei bloggað áður nema fyrir hönd Apa sem er bara með loppur og vill frekar liggja á lyklaborðinu ogmala í kór við viftuna því tölvan ofhitnar undan honum, heldur en að nota þær til skapandi starfa einsog þessi kisi. Það hafa margir ljáð honum Apa fingur m.a. dísa og Matthías.

Ég er semsé stödd í Feneyjum fögru þar sem gondolíerarnir góla þegar þeir beigja fyrir horn "aaOOooojjjjjjj" með kokinu í kór við mávana og gutlið í vatninu.

Ég kom hingað með lest frá Berlín í gegnum Munchen. Næturlestarferðin frá Berlín með þjóðverjum í kojuklefa var áhugaverð því þjóðverjar eru yfirdrifið óspéhræddir. Ég hafði gert mér rómantískar hugmyndir um þessa ferð, liggja í koju með stílabók og láta taktinn í lestinni lulla mér í svefn. En hrotur í feitum þjóðverjum héldu mér vakandi og ekkert fór í stílabókina því þjóðverjinn var ekki á því að leifa mér að hafa kveikt á lampa og ekki mátti ég heldur opna gluggann því pirruð þýsk kona sem hafði auk þess stolið koddanum mínum lokaði honum jafnharðan aftur. Það er ekki ráðlegt að raska svefnró þjóðverjans. Í morgunsárið vaknaði ég, teygði úr mér og leit upp, við mér blöstu innanverð læri á miðaldra stæðilegum karlmanni og útsýni upp eftir loðnum lærunum sem enduðu í klofi hulið svörtum nærbuxum. Guði sé lof fyrir þær. Maðurinn í efri kojunni var þá að príla sér niður, yfir mína mið-koju til að gera Mullers æfingarnar sínar.
Ég lét á engu bera og smeygði mér laumulega í pilsið mitt, sem ég hafði afklæðst til að koma í veg fyrir krumpur en svaf á sokkabuxum og hlýrabol, eins velklædd og velsæmiskennd mín leifði mér, í steikjandi heitum og loftlausum klefanum. Þegar pilsið var komið á prílaði ég mér niður og þvældist um lestina til að finna mér kaffibolla.

Ég skil ekkert í þessari óspéhræðslu og mér finnst hún leiðinleg. Ég vildi ekki láta þvinga þessi læri uppá mig og allra síst á fastandi maga. Hollendingurinn á þetta líka til. Það á að vera ægilega náttúrulegt og til marks um frjálsan huga að vera alltaf að sýna á sér hold en það er bara ekkert náttúrulegt og því síður frjálst við þetta. það er að mínu mati mikið náttúrulegra að viðhalda mystík og hylja nekt sína upp að skynsamlegu marki. Það er td yfirdrifið leiðinlegt að vera alltaf píndur til að sjá amk tíu typpi á öllum aldri ef maður liggur í sólbaði við stöðuvatn í Berlín og punga með. Einu sinni leit ég uppúr bókinni minni þar sem lá við vatn í sumar og það beinlíns dinglaði appelsínugulur rakaður pungur svona einn og hálfan metir frá
augunum á mér. Óþolandi og ósæmilegt að öllu leiti. Einhverskonar statement um hve frjálslegur maður er. Mér er illa við "freikörperkultur" og þrjóskast við að vera í bikinki þegar allir eru naktir í kringum mig.

Það gekk að lokum að fá kaffið og ég kom til baka í klefann minn til að finna þjóðverjana upptekna að færa farangurinn minn til í þeim tilgangi að breyta kojunum í sæti. Ég reyndi mitt besta til að hjálpa þeim. Ég, "klof-maðurinn" og konan hans stóðum í þessu og það endaði með því að ég rotaði næstum manninn því ég missti mið-kojuna, sú þjónar sem bak fyrir sætin á daginn, á hausinn á honum þar sem hann bograði yfir neðri-kojunni. Það hafði staðið á sér og svo alltíueinu losnað eftirmikið bis. Hann meiddi sig, nuddaði skallann og ég afsakaði mig baki brotnu en hugsaði með mér að þetta væri mátulegt á hann því ég hafði hann grunaðan um hroturnar og var enn hálf vönkuð eftir útsýnið sem hann hafði þröngvað uppá mig.

Morgunverður í Munchen og göngutúr. Ég var nokkurn vegin alveg unimpressed af þeirri borg nema fatnaðinum í búðargluggum. Jafnvel í C&A voru útstillingarnar bæverskir búningar sem maður sér konur, jafan haldandi á fjórum stórum bjórkrúsum í sitthvorri hendinni, klæðast. Lederhosen og rauðköflóttar skyrtur fyrir menn. Fallegar flíkur. Mig hafði hlakkað til að finna tóbaksbúð og seigja sposk "Gruss Gott" uppá bæverska vísu og velta fyrir mér tóbaki með afgreiðslumanninum og kaupa handa pabba. Ég fann tóbaksbúð og hrópaði Gruss Gott gallvösk en maðurinn var fúll og vildi ekkert spjalla við mig svo ég sleppti því að kaupa tóbak. Ráðhúsið var fallegt.

Ég hafði svarið þess eið að sitja í veitingarvagninum í lestinni yfir alpana til Ítalíu og drekka mig fulla á bæverskum bjór, en þá var það ítölsk lest svo ég sat með stílabókina mína, skrifaði ástarbréf, sötraði vín og nartaði í kexstangir, parmaskinku og melónu í andakt yfir dásamlegu útsýninu á meðan lestin renndi sér upp og niður og á milli alpanna og í gegnum þá. Svei mér þá hvað það var fallegt ferðalag. Ég bjóst við að sjá smala með skegg, jóðlandi og hlaupandi á eftir geitum með bjöllur um hálsinn en það var lítið um það.

Ég kom til Feneyja um fimm leitið. Nú er ég búin að vera hér í hérum bil þrjár vikur hér gefur að líta myndir af íbúðinni sem ég bý í núna og hér, myndir að þeirri sem ég er að fara að flytja í og leiðinni sem ég geng í vinnunna. Ég er alveg harðánægð með mig að hafa fundið þessa seinni íbúð. House hunting í Feneyjum verður næsta blogg.

Algerlega yðar
Gunnhildur