Wednesday, September 19, 2007
Ég vil engan dæma og allir meiga hafa beyglur sínar, vankanta og dinti fyrir mér. Það er bara betra og fjölbreytilegra. En í dag er ég lasin með hálsbólgu eftir skordýra- og rottueitrið, varnirnar liggja greinilega niðri og það sópast að mér ótrúlegir furðufuglar sem ég losna aldrei við sökum þess hve opin og mikil yndælisstúlka ég er. Viðbrögðin við því að svara játandi þegar maður er spurður hvort maður sé frá íslandi geta verið hreint út bizarre. Allt frá hlátursrokum uppí einhverskonar grindarglampa. Við erum svo sjaldgæf eintök að fólk fær impúls til að taka mann og geyma mann í glerkrukku einsog safngrip. Ég sé það stundum í augunum á því. Ég er búin að fá nokkra furðufugla í dag, tvo sem vert er að minnast á, þar sem ég sat með hálsbólguna mína upptekin við að leggja kapal í tölvunni. Annar var óðamála, heilsaði mér, spurði hvaðan ég væri muldrandi og feiminn snyrtilegur eldri maður með flöktandi en ákaft augnarráð. Hann brast svo á, sleppti sér algerlega, talaði um fíla með rúnir ristar í blóði í fætur sína úr helvíti Dante í litlu þorpi einhversaðar á ítalíu. Listræn tengsl víkinga og rómverja ef ég skildi hann rétt (skil samt ekki hvernig fíllinn passar inní jöfnuna). Hann sýndi mér greinar og teiknaðar myndir máli sínu til sönnunar, fyllti littla yfirsetudömuborðið mitt af pappírsdóti og í orðflauminum tókst honum að stauta uppúrsér hvort hann mætti fá hár úr höfði mínu, hann safni nenfnilega sömplum úr sjaldgæfu fólki. Eftir að hann sannfærði mig um að hann væri hvorki raðmorðingi, sturlaður vísindamaður né pervert heldur bara svolítið brjálaður arkítekt með side projekt að sampla fólk sem hann hittir gaf ég honum hár og kvittaði fyrir því. Ég skil vel að fólki þyki áhugavert að hitta einn af 300.000 blah blah blah ef það er þannig þenkjandi á annað borð. En stundum keyrir um þverbak. Á meðan flaumurinn rann úr arkítektinum kom annar maður inn og spurði á einhverskonar íslensku "Ertu íslensk?" Ég svara játandi. Maðurinn brotnaði þá saman í raunvörulegt hysterískt hláturskast og hröklaðist út. Það var raunar ágætt, þá horfðumst við arkítektinn í augu og mín augu sögðu "sjáðu hvað ég þarf að díla við" og hans augu sögðu "ég samhryggist og ég mun ekki trufla þig framar" svo fór hann. Furðufuglarnir núlluðu hvorn annan út.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment