Tuesday, September 18, 2007

Mér er sama þó moskítóflugur og rottur éti mig upp til agna. Það er rottuskítur í stigaganginum. Húsið mitt er götótt, áðan heyrði ég hljóð inní veggnum.

Einhver sagði mér sögu af manni í fyrradag sem rumskaði tvisvar yfir nótt við að honum klæjaði í tánna. Svo þegar hann vaknaði var búið að naga hana af. Rottur eru einsog moskítóflugur með deyfiefni svo maður sé ekki að trufla þær þegar þær eru að narta þetta í mann.

Um daginn, nánar tiltekið fyrir viku átti ég enga ósk heitari (fyrir utan world peace og engar fleiri hungursneyðir) en að vera moskítóbita frí sérstaklega á fótleggjunum. Ég er með alskyns warfare, baneitrað sprey-eitur með appelsínugulri mynd af dánum fiski og dánu tré aftan á. Reykelsi sem fæla og úðasmyrsl sem fælir af húð. Þetta dugði allt ágætlega og þessi ósk mín rættist.

Þetta er heljarinnar operation, fyrst spreyja ég herbergið og loka í 20 mín, sest þá gjarnan inní eldhús og maka á mig fælandi smyrslum með vínglasi og sígarettu. Svo kveiki ég á spírallaga baneitruðu reykelsi sem ég stilli útí glugga og set lofkælinguna á. Bíð í aðrar 20 mín bursta tennur og snurfusa mig fyrir svefninn.

Ég held ég sé orðin lasin af þessu. Ég er með hálsbólgu.

Núna er mér sama. Ég er hætt. Moskítóflugurnar sveima í kringum mig, ég er með nokkur bit og rotturnar bralla inní veggnum. Mér er sama um allt. Allir verða að borða.

Ég verð samt að seigja að ég vil helst ekki mæta rottu í ganginum, ég verð að vera sofandi þegar þær éta mig. Bara svo lengi sem ég þarf ekki að sjá þær, ég reyni að vera með læti þegar ég geng upp stigann heim. Ég opna útidyra hurðina uppá gátt, kíki inn, sé enga, bara skítinn úr þeim snyrtilega skitin meðfram veggjunum. Ég stappa niður fætinum og lem lyklunum mínum í veggina á leiðinni upp svo þær heyri í mér og forði sér. Ég get dílað við að sjá þær úti á götu á nóttunni og syndandi í síkjunum en ég mundi ekki meika að mæta þeim í stigaganginum.

Best ég fari snöggvast og setji bók yfir gatið í eldhúsgólfinu og þunga vatnsflösku ofaná. Þá borða þær katalókinn fyrir tvíæringinn í forrétt, skola honum niður með vatni og geta þá fengið tærnar á mér í eftirrétt ef moskítóflugurnar skilja eitthvað eftir.

Bon Appétit

No comments: