Thursday, September 20, 2007



Moskító Pistill I.

Góð ráð við moskítóflugum.
Hér á eftir fara nokkur góð ráð í hinni endalausu styrjöld milli manna og flugna. Ég er staðfastur dáti í stríði þessu og hef víðtæka reynslu sem ég deili glöð með ykkur lesendur mínir tryggir og kærir.

Moskító flugur geta þefað mann uppi úr töluverðri fjarlægð, allt að fimm kílómetrum, sérstaklega eru þær sensitífar fyrir andadrætti sem við öndum frá okkur og velja sér jafnan einstaklinga útfrá honum. Þær eru hrifnari af sumum en öðrum, oftast hrifnastar af konum og kvenlegum mönnum af einhverjum ástæðum. Það eru einungis kvenflugurnar sem þurfa blóð í mataræði sitt til að geta verpt. Karlflugur lifa á blómadjús. Þær eru aktífastar í ljósaskiptum og á nóttunni og þá þarf að gera varúðarráðstafanir.

Hvítir flekar þegar bitið er nýtt.

#1 Viðbrögð við bitum.
Það er mjög misjaft hvernig fólk bregst við bitum, sumir finna varla fyrir þeim á meðan aðrir, einsog ég, fæ viðbjóðsleg viðbröð. Fyrst eftir að ég er bitin ver ég vör við lítinn hvítan fleka sem mig klæjar í, eftur uþb tuttugu tíma virðist það hafa jafnað sig en þá, ca 10 tímum eftir það, breytist bitið í harðan bólginn risafleka með óbærilegum kláða, hita og púlsi í. Ef ég passa að klóra mér ekki, og til þess þarf að breyta hörku, getur þessi horfið á uþb 3 dögum en ef ég klóra mér, sem ég geri oftast í svefni, sit ég uppi með risabit í fimm til sjö daga og enda með marglitan marblett. Það er raunar misjafnt hve flekinn og marbletturinn er stór, það virðist fara eftir fitulagi húðarinnar. Ef ég er bitin í læri eða upphandlegg er flekinn stór, en ef ég er bitin á kjúku eða ristina er bitið lítið en gífurlegur þrýstingur í því. Stundum hef ég fengið blöðrur, einusinni mjög stóra og vökvafyllta. Af þessu má sjá að það borgar sig að vera varkár og vakandi og gera vandlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir bit. Það breytir því ekki að ég er oft bitin því flugurnar eru tilbúnar að leggja ýmislegt á sig til að fá bita af mér. Þær elska mig. Næsti pistill fjallar um hvernig best er að gera að bitum með ýmsum ráðum en hér verður fjallað um leiðir til að koma í veg fyrir bit.



#2. Fælandi efni til að bera á skinn.
Það er mikið úrval af efnum til að bera- og spreyja á skinn til að koma í veg fyrir bit. Efni sem maður ber á skinn er gert til að rugla þær þegar þær eru búnar að súmma inná mann. Þau eru afar misjöfn að gæðum og virkni. Jurtin Sitronella er náttúrleg lausn, en hefur stutta og veika virkni en þó einhverja. Camphora, menthol og eucalyptus sem finnast meðal annars í mörgum kínverskum smyrslum einsog t.a.m. Tigerbalm eru einnig áhrifarík en einungis í u.þ.b. 20 mínótur. Séu þessar vörur bornar títt á virka þær ágætlega. Sprey og smyrsl sem innihalda DEET eru áhrifaríkust, en líka í sumutilfellum óholl og oft óaðlaðandi fyrir okkur, lygta illa og bragðast hryllilega. En virkin af þeim er langvarandi og ágætlega effektíf, allt að sex klukkustundir. Þó eru allar þessar vörur tiltölulega óstabílar í virkni og ekki nægjanlegar einar og sér til að koma í veg fyrir bit. Það er gott að spreyja líka á fötin sín því þær fara létt með að bíta í gegnum suman fatnað. Það eru líka til armbönd sem eiga að virka fyrir allann líkamann, ég fjárfesti i einu slíku í gær, það kostaði 9 evrur og á að virka í 6 daga. Ég prufaði að sofa með það í nótt, gerði engar aðrar ráðstafanir og vaknaði með einungis eitt bit jafnvel þó að það væri fluga í herberginu svo það virðist virka ágætlega. Ef það er fluga í herberginu og ég geri engar ráðstafannir vakna ég yfirleitt með uþb fimm til tíu bit svo þetta verður að teljast nokkuð góð virkni.

#3. Fælandi efni innanhúss sem utan.
Plantan Sítrónella í gluggum er sögð koma í veg fyrir að moskító flugur leiti inn til mans. Það er ekki mín reynsla, Þær fljúga einfaldlega framhjá. Net eru góð lausn en þarf að vera vel gert. Ef það er fluga í svefnherberginu hjá manni er nokkuð víst að maður vaknar með eitt eða fleiri bit daginn eftir. Í mínu tilfelli er alltaf fluga inni hjá mér því þær elska mig, svo ég tek mörg og flókin skref til að halda þeim frá. Það eru til kerti sem innihalda Sitronellu, en mér hefur ekki fundist virkni þeirra til að hrópa húrra fyrir. Ef ég ælta að vera virkilega 100% viss um að vera moskító frí í svefnherberginu mínu yfir nótt eitra ég herbergið (Ég er reyndar hætt því núna því það er flókið og verulega óhollt) og sit svo "Vapo" eða "Frog", spírallaga reykelsi, sem þær hata, útí glugga til að geta haft hann opinn. Ég passa að hafa ekki ljós inni í herberginu eftir að ég hef opnað gluggann. Það er lykilatriði. Þær laðast að ljósi svo ég hef logandi ljós, helst flúor ljós í eldhúsinu yfir nótt til að reyna að tæla þær frá svefnherberginu.
Ef maður vill ekki eitra svefnherbergið sitt og það er fluga inn hjá manni er gott að liggja alveg kjurr og þykjast sofa og vera með lítið ljós, bara eitt í öllu herberginu við rúmið, þær sækja í ljós. Maður þarf að liggja alveg kjurr sem svæfi maður, því þær skynja hjartslátt og koma ekki á stjá fyrr enn þær finna að það hefur hægst á honum. Svo koma þær og setjast þar sem ljósið skín og þá getur maður drepið þær. Þetta getur tekið tíma en er þess virði til að vakna ekki með bit. Sérstaklega fyrir fólk sem bregst illa við bitum einsog mig.
Ef maður er með matarboð úti á verönd eða við opna glugga er gott að setja áðurnefnd spíralreykelsi undir borðið til viðbótar við sítrónellu kerti og fælandi áburði á húð til að koma í veg fyrir bit á fótleggjum.

Hér lýkur þessari samantekt. Í næsta pisli mun ég fjalla um hvernig best er að eiga við bit, því ekki verður hjá því komist að vera bitin sama hvaða ráðstafannir maður tekur. Ef einhver hefur einverju við þetta að bæta eru öll ráð vel þegin.


Hermaður heilsar,
Gunnhildur

No comments: