Friday, September 07, 2007

Ég veit hvar ég verð þegar ég verð 70 ára. Ég verð á vaðstígvélum með hund á bóndabæ á suðurlandsundirlendi Íslands. Þar ætla ég að kaupa mér hús og rækta kartöflur og bjóða hestamönnum ókeypis sumarhaga með sérstaka áherslu á fylfullar merar. Sumarhagann ætla ég að hafa beint fyrir utan vinnustofugluggann minn og þegar ég lít dreymin uppúr vinnunni mun ég kannski sjá nýfætt folald taka fyrstu skrefin sín.
Húsið er stórt, ég er með ákveðið eyðibýli í huga og vinir mínir koma í langar heimsóknir og verða með vinnustofur hjá mér. Það verður nóg pláss fyrir barnabörninmín og litlar frænkur og litla frænda. Ég mun fá leyfi hjá yfirdýralækni til að flytja inn Hjaltlandseyjadverghesta fyrir þau. Þetta er eina leiðin fyrir mig til að flytja aftur til þessa brjálaða lands, íslands.

Guð blessi ykkur öll. Ég mun blogga á meðan ég dvelst hér í Feneyjum og kannski um ókomna tíð. Ég hef aldrei bloggað áður nema fyrir hönd Apa sem er bara með loppur og vill frekar liggja á lyklaborðinu ogmala í kór við viftuna því tölvan ofhitnar undan honum, heldur en að nota þær til skapandi starfa einsog þessi kisi. Það hafa margir ljáð honum Apa fingur m.a. dísa og Matthías.

Ég er semsé stödd í Feneyjum fögru þar sem gondolíerarnir góla þegar þeir beigja fyrir horn "aaOOooojjjjjjj" með kokinu í kór við mávana og gutlið í vatninu.

Ég kom hingað með lest frá Berlín í gegnum Munchen. Næturlestarferðin frá Berlín með þjóðverjum í kojuklefa var áhugaverð því þjóðverjar eru yfirdrifið óspéhræddir. Ég hafði gert mér rómantískar hugmyndir um þessa ferð, liggja í koju með stílabók og láta taktinn í lestinni lulla mér í svefn. En hrotur í feitum þjóðverjum héldu mér vakandi og ekkert fór í stílabókina því þjóðverjinn var ekki á því að leifa mér að hafa kveikt á lampa og ekki mátti ég heldur opna gluggann því pirruð þýsk kona sem hafði auk þess stolið koddanum mínum lokaði honum jafnharðan aftur. Það er ekki ráðlegt að raska svefnró þjóðverjans. Í morgunsárið vaknaði ég, teygði úr mér og leit upp, við mér blöstu innanverð læri á miðaldra stæðilegum karlmanni og útsýni upp eftir loðnum lærunum sem enduðu í klofi hulið svörtum nærbuxum. Guði sé lof fyrir þær. Maðurinn í efri kojunni var þá að príla sér niður, yfir mína mið-koju til að gera Mullers æfingarnar sínar.
Ég lét á engu bera og smeygði mér laumulega í pilsið mitt, sem ég hafði afklæðst til að koma í veg fyrir krumpur en svaf á sokkabuxum og hlýrabol, eins velklædd og velsæmiskennd mín leifði mér, í steikjandi heitum og loftlausum klefanum. Þegar pilsið var komið á prílaði ég mér niður og þvældist um lestina til að finna mér kaffibolla.

Ég skil ekkert í þessari óspéhræðslu og mér finnst hún leiðinleg. Ég vildi ekki láta þvinga þessi læri uppá mig og allra síst á fastandi maga. Hollendingurinn á þetta líka til. Það á að vera ægilega náttúrulegt og til marks um frjálsan huga að vera alltaf að sýna á sér hold en það er bara ekkert náttúrulegt og því síður frjálst við þetta. það er að mínu mati mikið náttúrulegra að viðhalda mystík og hylja nekt sína upp að skynsamlegu marki. Það er td yfirdrifið leiðinlegt að vera alltaf píndur til að sjá amk tíu typpi á öllum aldri ef maður liggur í sólbaði við stöðuvatn í Berlín og punga með. Einu sinni leit ég uppúr bókinni minni þar sem lá við vatn í sumar og það beinlíns dinglaði appelsínugulur rakaður pungur svona einn og hálfan metir frá
augunum á mér. Óþolandi og ósæmilegt að öllu leiti. Einhverskonar statement um hve frjálslegur maður er. Mér er illa við "freikörperkultur" og þrjóskast við að vera í bikinki þegar allir eru naktir í kringum mig.

Það gekk að lokum að fá kaffið og ég kom til baka í klefann minn til að finna þjóðverjana upptekna að færa farangurinn minn til í þeim tilgangi að breyta kojunum í sæti. Ég reyndi mitt besta til að hjálpa þeim. Ég, "klof-maðurinn" og konan hans stóðum í þessu og það endaði með því að ég rotaði næstum manninn því ég missti mið-kojuna, sú þjónar sem bak fyrir sætin á daginn, á hausinn á honum þar sem hann bograði yfir neðri-kojunni. Það hafði staðið á sér og svo alltíueinu losnað eftirmikið bis. Hann meiddi sig, nuddaði skallann og ég afsakaði mig baki brotnu en hugsaði með mér að þetta væri mátulegt á hann því ég hafði hann grunaðan um hroturnar og var enn hálf vönkuð eftir útsýnið sem hann hafði þröngvað uppá mig.

Morgunverður í Munchen og göngutúr. Ég var nokkurn vegin alveg unimpressed af þeirri borg nema fatnaðinum í búðargluggum. Jafnvel í C&A voru útstillingarnar bæverskir búningar sem maður sér konur, jafan haldandi á fjórum stórum bjórkrúsum í sitthvorri hendinni, klæðast. Lederhosen og rauðköflóttar skyrtur fyrir menn. Fallegar flíkur. Mig hafði hlakkað til að finna tóbaksbúð og seigja sposk "Gruss Gott" uppá bæverska vísu og velta fyrir mér tóbaki með afgreiðslumanninum og kaupa handa pabba. Ég fann tóbaksbúð og hrópaði Gruss Gott gallvösk en maðurinn var fúll og vildi ekkert spjalla við mig svo ég sleppti því að kaupa tóbak. Ráðhúsið var fallegt.

Ég hafði svarið þess eið að sitja í veitingarvagninum í lestinni yfir alpana til Ítalíu og drekka mig fulla á bæverskum bjór, en þá var það ítölsk lest svo ég sat með stílabókina mína, skrifaði ástarbréf, sötraði vín og nartaði í kexstangir, parmaskinku og melónu í andakt yfir dásamlegu útsýninu á meðan lestin renndi sér upp og niður og á milli alpanna og í gegnum þá. Svei mér þá hvað það var fallegt ferðalag. Ég bjóst við að sjá smala með skegg, jóðlandi og hlaupandi á eftir geitum með bjöllur um hálsinn en það var lítið um það.

Ég kom til Feneyja um fimm leitið. Nú er ég búin að vera hér í hérum bil þrjár vikur hér gefur að líta myndir af íbúðinni sem ég bý í núna og hér, myndir að þeirri sem ég er að fara að flytja í og leiðinni sem ég geng í vinnunna. Ég er alveg harðánægð með mig að hafa fundið þessa seinni íbúð. House hunting í Feneyjum verður næsta blogg.

Algerlega yðar
Gunnhildur

2 comments:

Anonymous said...

kæra gunna
passaðu þig að gondólaræðararnir kyssi þig ekki. þeir eru vísir til þess að reyna.
þegar þú verður einvaldur alheimsins geturðu bannað nekt á almannafæri og látið flengja þá sem dingla pung í óþökk.
Daphne

Gunnhildur said...

Ó biddu fyrir þér, þeir meiga kyssa mig einsog þeir vita vel. Þeir meiga jafnvel vera naktir að róa gondólunum sínum. Þeir fá sér díl í lífinu þegar ég er orðin einvaldur alheims. Ég er strax farin að hlakka til.